frelsi - prelude

á milli
himins og jarðar
er allt

eins og þar stendur skrifað


~


á milli
upphafs og endis
er lífið

holdið og blóðið
milli fæðingarinnar
og dauðans


~


frelsið
á milli myrkurs
og ljóss


~


milli
himins og jarðar
vatnið og eldurinn


~


allur sá skilningur
sem má lesa í orð
eins og epli


~


moskurnar kirkjurnar
musterin hofin

turninn
steinninn og sandurinn


~


við höfum
margfaldað orðið
á jörðinni

margfaldað virkin
milli himins og jarðar
margfaldað guð


~


margfaldað hláturinn
grátinn hatrið og græðgina

margfaldað allt
milli himins og jarðar

allt nema gæskuna


~


við höfum margfaldað frelsið
til að strita

til að eta og drekka
og fagna

margfaldað frelsið
til að afmarka stundina

frelsið til að grafa okkur
lifandi í moldina


~


við höfum margfaldað
frelsið til að grafa okkur

lifandi
í túninu heima


~

© Linda Vilhjálmsdóttir
From: Frelsi
Reykjavík: Mál og menning, 2015
Audio production: Haus für Poesie, 2018